Ákvörðun um val á flutningsleið grundvallast á að vega og meta saman nokkra meginþætti. Einn þeirra er umhverfi sem felur í sér mat því hve mikil áhrif framkvæmdin kemur til með að hafa á umhverfi sitt. Þá þarf að tryggja að framkvæmdin uppfylli kröfur um öryggi á afhendingu rafmagns til samfélagsins, hvort sem er til almennings og heimila eða atvinnulífs. Að lokum þarf að horfa til efnahagslegra þátta sem byggir á kostnaði eða ávinningi framkvæmdarinnar.
Við undirbúning Suðurnesjalínu 2 hafa eftirfarandi megin valkostir verið til í mati á umhverfisáhrifum Suðurnesjalínu 2.
Jarðstrengur samhliða Suðurnesjalínu 1. Alls um 31,79 km langur.
Jarðstrengur samhliða Reykjanesbraut. Alls um 32,95 km langur. Á um 16 km löngum kafla liggur jarðstrengur samhliða Reykjanesbraut.
Loftlína sem fer um Hrauntungur og liggur að mestu samhliða Suðurnesjalínu 1. Alls um 33,9 km löng.
Loftlína sem fylgir Suðurnesjalínu 1 alla leið, þ.e. fer ekki um Hrauntungur. Alls um 32,03 km.
Blönduð leið. Loftlína samhliða Suðurnesjalínu 1. Á 7 km kafla þar sem línurnar liggja næst Reykjanesbraut felur valkosturinn í sér að setja Suðurnesjalínu 1 og 2 á sömu möstur. Alls um 33,9 km löng.
Meðfylgjandi er samanburður á núvirtum stofnkostnaði framkvæmdar fyrir mismunandi valkosti. Innifalinn er allur kostnaður mannvirkis sem tengist framkvæmd frá því að ákvörðun er tekin um að fara í framkvæmd þangað til mannvirkið er tekið í rekstur.
Samkvæmt niðurstöðu er ódýrasti kosturinn að fylgja Suðurnesjalínu 1 alla leið. Aðalvalkostur um Hrauntungur er næstódýrastur.
Valkostirnir hafa mismikið rask í för með sér. Breidd skurðsins sem strengurinn er lagður í ræður mestu um umfang rasks vegna jarðstrengja. Rask vegna loftlínu felst í gerð vegslóðar meðfram línu og plani fyrir möstur.
Minnst rask yrði vegna loftlínu sem fylgir Suðurnesjalínu 1 alla leið. Næstminnst rask yrði vegna aðalvalkosts.
Helstu umhverfisáhrif háspennulína snúa jafnan að ásýnd og breytingu á landslagi. Eins og gefur að skilja hafa loftlínur meiri ásýndaráhrif í för með sér en jarðstrengir. Strengir skilja þó eftir sig far í landslagi sem geta haft í för með sér ásýndaráhrif, mismikil eftir viðkvæmni svæða. Það sem einnig ræður ásýndaráhrifum Suðurnesjalínu 2 er sú staðreynd að fyrir er Suðurnesjalína 1 sem er mjög sýnileg í því opna landslagi sem þarna er.
Aðalvalkostur Landsnets vegna Suðurnesjalínu 2 er C: Loftlína um Hrauntungur og samanstendur af jarðstreng frá tengivirkinu í Hamranesi að Hraunhellu í Hafnarfirði. Þaðan fer línan í lofti í suðaustur í átt að fyrirhuguðu tengivirki við Hrauntungur. Frá Hrauntungum liggur línan til suðvesturs og kemur að Suðurnesjalínu 1 við sveitarfélagamörk Hafnarfjarðar og Voga miðja vegu milli Straumsvíkur og Vatnsleysuvíkur. Þaðan munu línurnar liggja samhliða alla leið á Njarðvíkurheiði í Reykjanesbæ. Þar fer Suðurnesjalína 2 til suðurs samhliða Fitjalínu að tengivirkinu á Rauðamel í Grindavík. .
Í stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfisins kemur fram að fyrir meginflutningskerfi raforku skuli meginreglan vera sú að notast við loftlínur nema annað sé talið æskilegra, m.a. út frá tæknilegum atriðum eða umhverfis- eða öryggissjónarmiðum. Með vísun í niðurstöður umhverfismatsins og samanburðar á umhverfisáhrifum aðalvalkostar og annarra valkosta telur Landsnet að umhverfissjónarmið gefi ekki tilefni til þess að vikið sé frá þeirri reglu stjórnvalda, sér í lagi þar sem kostnaður við loftlínu er mun lægri en við jarðstreng. Þrátt fyrir að áhrif aðalvalkostar séu meiri en annarra valkosta, þá sé munur áhrifa ekki það mikill að hann réttlæti val á mun dýrari valkosti.
Ef raflína er innan skilgreinds þéttbýlis er heimilt að ráðast í jarðstrengslögn þrátt fyrir að kostnaður sé meiri en tvöfaldur á við loftlínukost. Fyrirhugaður strengur er á milli Hamraness og Hraunhellu og byggir á að þar verði mestur ávinningur af jarðstrengslögn innan þéttbýlismarkanna.
Ein neikvæðustu umhverfisáhrif aðalvalkostar koma fram við Hrauntungur, en minni áhrif yrðu af valkosti sem færi út frá Hamranesi samhliða Suðurnesjalínu Ástæða fyrir legu aðalvalkostur byggir á stefnumörkun í aðalskipulagi Hafnarfjarðar, sem gerir ráð fyrir að dregið verði úr mikilvægi núverandi tengivirkis við Hamranes, þar sem íbúabyggð hefur þróast nærri og fyrirhugað að geri áfram.