Umhverfi


Mat á umhverfisáhrifum Suðurnesjalínu 2 hefur farið fram. Þar var áhrifasvæði skipt upp í fjögur svæði til að einfalda og samræma umfjöllun.

Svæðin eru eftirfarandi:

Nær frá Vogavegi og yfir Rauðamel og er tengivirkið þar innan svæðisins. Svæðið einkennist annars vegar af sigdalnum suður af Vogum, með dæmigerðum siggengjum og sprungum í hrauninu, og hins vegar af ýmiskonar athafnastarfsemi og mannvirkjum við Rauðamel. Við Rauðmel hefur hrauninu verið þó nokkuð raskað en nær Reykjanesbraut, við Seltjörn og Snorrastaðatjarnir, er skógrækt og ríkt fuglalíf og svæðið nokkuð vinsælt til útivistar.

Svæðisskiptingin nær langleiðina að Vogavegi og einkennist helst af lyngvöxnu dyngjuhrauninu Þráinsskjaldarhrauni. Landnotkun innan svæðisins er lítil, ef frá er talið að vegurinn sem liggur að Keili er innan svæðisins og er mikið notaður af útivistarfólki.

Svæðisskiptingin nær að þéttbýlismörkum Hafnarfjarðarbæjar og er tengivirkið við Hamraness innan þess. Svæðið einkennist af uppbyggingarsvæðum Hafnarfjarðar í mosavöxnu Kapelluhrauni ásamt efnistöku, iðnaði og ýmissi landnotkun í tengslum við félagasamtök, t.a.m. Skotveiðifélags Hafnafjarðar, Kvartmíluklúbbsins og Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar.

Svæðið nær yfir Almenning og vestur fyrir Afstapahraun. Svæðið einkennist af tveimur ólíkum hraunum, annarsvegar birki- og lyngvöxnu hrauni, með sprungnum berghólum og lautum, í Almenningi og hinsvegar mosavöxnu og úfnu Afstapahrauni. Við Hrauntungur er fyrirhugað tengivirki og þar nálægt er skógrækt á vegum Skógrækt ríkisins. Svæðið allt er ríkt af fornleifum og þjóðleiðum og er mikið notað til útivistar, sér í lagi Almenningur.

 

 

 

Niðurstöður mats á umhverfisáhrifum

Umhverfisáhrif eru breytileg eftir svæðum. Hér er greint frá áhrifum aðalvalkostar á helstu umhverfisþætti. Veigamestu áhrifin eru í nágrenni Hafnarfjarðar og á Strandarheiði á landslag og ásýnd auk áhrifa á jarðminjar. Í frummatsskýrslu er umfjöllun um áhrif allra valkosta á fleiri umhverfisþætti.


Jarðminjar

Framkvæmdin fer að stórum hluta um hraunasvæði, sem víða ber merki röskunar bæði með tilliti til jarðminja og gróðurs. Hraun (eldhraun) hafa hátt verndargildi sem jarðmyndanir og landslag, en hraun á framkvæmdasvæðinu hafa mismikið verndargildi eftir hversu veðruð eða röskuð þau eru. Yfirborð hrauna er afar viðkvæmt fyrir raski og er allt rask á því óafturkræft.  Heildaryfirborðsrask vegna aðalvalkostar er 12,6 ha og þar af tæplega 7 ha á óhreyfðu landi, en mismunandi er eftir svæðum hversu stór hluti þess er hraun.

Áhrif á jarðminjar eru nokkuð neikvæð í Hafnarfirði og á Njarðvíkurheiði en mest innan Almennings, þar sem þau eru talin talsvert til verulega neikvæð.

 

 

Vistgerðir/gróður

Framkvæmdasvæðið er misvel gróið en allflestar vistgerðir sem þarna finnast eru algengar í flestum landshlutum. Framkvæmdin raskar engri vistgerð með mjög hátt verndargildi en raskar tæplega 2 ha kjarrskógavist, sem hefur hátt gildi.

Áhrifin eru mest í Almenningi þar sem þau eru talsvert neikvæð en á öðrum svæðum eru áhrif talin nokkuð neikvæð.


 

 

Landslag/ásýnd

Svæðið liggur nokkuð lágt og þaðan er víðsýnt meðal annars til fjalla suður af framkvæmdasvæðinu, yfir svæði sem ber lítil eða engin ummerki mn . Umferð er mikil meðfram Reykjanesbrautinni þaðan sem víða mun sjást til línumannvirkjanna.

Áhrif eru mest í Almenningi þar sem þau eru talsvert til verulega neikvæð, því næst á Strandarheiði en minni á öðrum svæðum.

 

 

 

Ferðaþjónusta/útivist

Nýting ferðaþjónustuaðila og útivistarfólks er ólík eftir svæðum, en helstu útivistarsvæði eru í nágrenni Hafnarfjarðar og við Seltjörn og Snorrastaðatjarnir. Ferðaþjónustuaðilar nýta sér Reykjanesið töluvert en fáir eru í nágrenni fyrirhugaðra framkvæmda.

Áhrif aðalvalkostar eru mest í Almenningi og á Njarðvíkurheiði þar sem þau eru talsvert neikvæð, en nokkuð neikvæð á öðrum svæðum.

 

 

 

Fuglar

Nokkrar fuglategundir sem nýta svæði við línuleiðina eru á válista eða teljast í yfirvofandi hættu, en hún liggur ekki um mikilvæg fuglasvæði. Þá eru farleiðir máfa og farfugla í nágrenni Snorrastaðatjarna og Seltjarnar, þar sem mesta hætta skapast af mögulegu áflugi. Framkvæmdin mun raska 12,55 ha af landi og þar af 7 ha af óröskuðu landi, sem að hluta mun raska búsvæðum fugla.

Áhrifin eru talsvert neikvæð á Njarðvíkurheiði en óveruleg til nokkuð neikvæð annars staðar.

 

 

 

Vatnsvernd

Á stærstum hluta leiðarinnar er farið yfir nútímahraun með þunnri gróðurþekju. Nánast ekkert yfirborðsrennsli er á svæðinu og hripar regn og leysingarvatn hratt niður í hraunið. Farið er um fjarsvæði vatnsverndar og jaðar grannsvæðis í landi Voga og um fjarsvæði í landi Reykjanesbæjar. Ýmsir verkþættir við framkvæmdina fela í sér notkun á olíu og olíuefnum sem fylgir áhættu ef óhapp verður á verktíma sem leitt getur til hugsanlegs leka efna út í umhverfið. Helst er að vænta áhrifa á Njarðvíkurheiði þar sem beint rask verður í nágrenni við grannsvæði vatnsverndar.

 

 

 

Fornleifar

Rúmlega 80 fornminjar eru í og við línuleiðina, sem flestar eru frá tímabilinu 1550 – 1900, en engar þeirra eru friðlýstar. Sel eru einkennandi fornleifar á Reykjanesinu og hafa mikið minjagildi, en þau liggja öll nokkuð frá línunni og eru ekki í beinni hættu vegna hennar. Neikvæðustu áhrifin verða í Almenningi þar sem línuslóð þverar selstíga sem hafa talsvert minja- og varðveislugildi.

 

 

 

Skýrslur og fylgiskjöl

Matsskýrsla og viðaukar á vagna umhverfismats á Suðurnesjalínu 2

Skýrslur og fylgiskjöl

Kortasjá

Hér er hægt að skoða valkosti Suðurnesjalínu 2, kortaþekjur ásamt fyrir og eftir ljósmyndum.